Hinn 31. maí 2011
Hinn 31. maí 2011 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 55/2011 um breytingu á lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta með síðari breytingum. Með gildistöku hinna nýju laga bættist ákvæði til bráðabirgða inn í lögin, en ekki náðist að afgreiða nýtt heildarfrumvarp um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (sbr. þskj. 268 – 237. mál á 139. löggjafarþingi 2010-2011).
Þau nýmæli sem eru í hinu nýja bráðabirgðaákvæði laganna eru aðallega þau að innlánsstofnanir greiða nú gjald til sjálfstæðrar deildar sjóðsins vegna ársins 2011. Um er að ræða almennt iðgjald sem svarar til 0,3% á ári af öllum innstæðum eða 0,075% á ársfjórðungslegum gjalddaga. Gjalddagi fyrsta og annars ársfjórðungs er 1. september 2011, gjalddagi þriðja ársfjórðungs er 1. nóvember 2011 og gjalddagi fjórða ársfjórðungs er 1. mars 2012. Greiði innlánsstofnun ekki ársfjórðungslegt iðgjald á gjalddögum leggst á iðgjaldið 5% álag fyrir hvern liðinn dag umfram gjalddaga í fimm daga. Að þeim tíma liðnum eru vanskil fyrirtækisins tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins.
Þá ber innlánsstofnunum að veita sjóðnum upplýsingar eigi síðar en 30 dögum eftir lok hvers ársfjórðungs um samtölu þeirra eigna og atriða sem álagningin byggist á. Upplýsingarnar eiga að vera veittar í því formi sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ákveður, en innlánsstofnanir hafa fengið sent eyðublað til útfyllingar þessa efnis. Eyðublaðið verður gert aðgengilegt á heimasíðu sjóðsins á næstunni.
Loks er mælt fyrir um víðtækari undanþágur frá tryggingarvernd en áður hefur verið þannig að nú eru t.d. innstæður í eigu fyrirtækis þar sem fjármálafyrirtæki er meirihlutaeigandi og innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila undanþegnar tryggingarvernd.
Til nánari glöggvunar er hægt að nálgast umrædd lög nr. 55/2011 hér (http://www.althingi.is/altext/139/s/1585.html).