Um sjóðinn
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) er sjálfseignarstofnun sem starfar skv. lögum nr. 98/1999 með síðari breytingum. Markmið með lögunum er að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis í samræmi við ákvæði laganna. Markmið laganna er jafnframt að koma að fjármögnun skilameðferðar samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja nr. 70/2020.
TIF starfar í þremur deildum, þ.e. innstæðudeild, verðbréfadeild og skilasjóði. Um starfsemi innstæðudeildar og verðbréfadeildar er fjallað í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999. Skilasjóður er stofnaður sem sérstök deild innan TIF með ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 70/2020 en ákvæði laga 98/1999 taka ekki til málefna þeirrar deildar.
Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti og hafa staðfestu hér á landi, skulu eiga aðild að sjóðnum. Sama gildir um útibú þessara aðila innan EES og í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Aðildarfyrirtæki bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram lögbundin framlög til hans.
Hér má sjá lista yfir aðila að sjóðnum
TIF er undir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Framkvæmdastjóri TIF er Brynjar Kristjánsson.